Browse by year:


Internal Market

Frammistöðumat EES: Frammistaða Íslands mikið áhyggjuefni

14.4.2015

PR(15)16 – Icelandic version

EN | DE | IS | NO

„Óneitanlega  eru það mikil vonbrigði að ekki hafi tekist betur að framfylgja Evrópustefnu sem íslensk stjórnvöld kynntu fyrir ári. Þá samþykkti ríkisstjórn það markmið að á fyrri hluta árs 2015 verði innleiðingarhalli orðinn undir 1% en mælingin í nóvember 2014 sýnir 2,8% halla. Jafnframt samþykkti ríkisstjórnin að ekkert dómsmál verði fyrir EFTA-dómstólnum vegna skorts á innleiðingu EES-gerða en þau reyndust 13 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Stjórn ESA sá sérstakt tilefni til að fagna stefnumörkun ríkisstjórnarinnar varðandi framkvæmd EES-samningsins í fyrra og getur ekki annað en áréttað að frammistaða Íslands eins og hún hefur verið undanfarin ár er mikið áhyggjuefni,“ segir Helga Jónsdóttir stjórnarmaður í ESA í tilefni af nýjasta frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Frammistöðumat innri markaðarins er birt tvisvar á ári og sýnir hvernig stjórnvöldum á Íslandi og í Liechtenstein og Noregi gengur að innleiða tilskipanir og reglugerðir innri markaðarins á réttum tíma.  Innleiðingarhalli tilskipana sýnir hlutfall tilskipana sem ekki hafa verið innleiddar eða ESA hefur ekki verið tilkynnt um innleiðingu á innan réttra tímamarka. Innleiðingarhallinn tekur aðeins til þeirra gerða sem EFTA-ríkin hafa skuldbundið sig til að innleiða á grundvelli EES-samningsins.

Innleiðingarhalli Íslands er 2,8% sem svarar til þess að 31 tilskipun hafi ekki verið innleidd að fullu á réttum tíma. Innleiðingarhalli Íslands er sá mesti á öllum innri markaðnum en á eftir fylgir Noregur með 2% halla eða 23 óinnleiddar tilskipanir í nóvember. Til samanburðar er innleiðingarhallinn að meðaltali 0,5% í öllum ríkjum ESB og Slóvenía eitt ríkja er með innleiðingarhalla umfram 1% viðmiðið. 

Varðandi innleiðingu reglugerða innan tímamarka hefur Ísland þó tekið framförum. Í nóvember voru 34 reglugerðir komnar fram yfir tímamörk og hafði fækkað um 42 frá síðasta frammistöðumati.  Samningsbrotamál í nóvember voru 244 talsins og voru 164 þeirra gegn Íslandi, óbreytt frá síðasta frammistöðumati.

„Innri markaður Evrópuríkjanna og óhindruð samskipti og viðskipti fyrir fólk og fyrirtæki þ.á.m Íslendinga, byggist á því að lagareglurnar um þau mál séu samskonar. Tímanleg innleiðing sameiginlegra reglna er forsenda þess að hægt sé að tryggja jafnræði á innri markaðnum og öll EES ríkin eru skuldbundin til að virða tímamörk í því efni.  EFTA ríkin þurfa öll að taka sig á en það á þó sérstaklega við Ísland þar sem hallinn hefur verið langvarandi og sá langmesti á öllu Evrópska efnahagssvæðinu“, segir Helga Jónsdóttir.

·         Upplýsingablað um Frammistöðumat Evrópska efnahagssvæðisins

·         Frammistöðumat Evrópska efnahagssvæðisins (pdf)

 

Sé frekari upplýsinga óskað, vinsamlega hafið samband við:

Helga Jónsdóttir
Stjórnarmaður
Sími +32 2 286 18 22
Other EEA Institutions


imgbanner2
This website is built with Eplica CMS