Browse by year:


Internal Market

Frammistöðumat Evrópska efnahagssvæðisins: Í 31 ríkja hópi er frammistaða Íslands sú lang lakasta

28.2.2014

PR(14)11 - Icelandic version

Frammistaða Íslands við að innleiða tilskipanir og reglugerðir EES á réttum tíma er langtum lakari en nokkurs annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu. Innleiðingarhalli tilskipana sýnir það hlutfall tilskipana sem ekki hefur verið tilkynnt innan réttra tímamarka til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Innleiðingarhalli Íslands í nóvember 2013 var 3,2% sem samsvarar því að 37 tilskipanir voru ekki að fullu innleiddar á réttum tíma. Innleiðingarhallinn í maí 2013, þegar síðasta frammistöðumat var gert, var 2,3% og þá sá mesti sem verið hafði um árabil. Reglugerðum sem ekki voru innleiddar innan tímamarka á Íslandi stórfjölgaði - eða um 82 frá síðasta frammistöðumati og eru nú 117 talsins. Jafnframt lengist enn sá tími sem Ísland fer fram úr tímamörkum um 1,3 mánuði og er nú 13,1 mánuður að meðaltali. Rétt er taka fram, að innleiðingarhallinn tekur aðeins til tafa á innleiðingu á gerðum sem EFTA-ríkin eru skuldbundin til að innleiða á grundvelli EES-samningsins. 

Í Noregi tvöfaldaðist innleiðingarhalli tilskipana frá síðasta frammistöðumati. Hann er nú 1,8%, sem svarar til 21 tilskipunar, og er Ísland eitt allra EES-ríkja með meiri halla. Hins vegar fækkaði óinnleiddum reglugerðum í Noregi og fóru þær úr 30 í 23. Noregur fór að jafnaði 5,7 mánuði fram úr tímamörkun og hefur frammistaðan því heldur batnað frá síðasta mati þegar talan var 5,9 mánuðir.

Liechtenstein var rétt innan við 1% innleiðingarhalla en það eru þau mörk sem halda ber sig innan. Það svarar því að 11 tilskipanir séu ekki innleiddar á réttum tíma og er það slakari frammistaða en áður hefur verið hjá Liechtenstein.

Til samanburðar þá var innleiðingarhallinn að meðaltali 0,7% í ríkjum Evrópusambandsins (ESB). Aðeins fimm ESB ríki voru með halla umfram 1% viðmiðið og mesti innleiðingarhallinn í ESB var 1,5%.

Í frammistöðumatinu kemur einnig fram, hversu mörg samningsbrotamál gegn EFTA-ríkjunum eru til meðferðar hjá ESA. Slík mál stafa af því að tilskipanir og reglugerðir eru ekki innleiddar innan tímamarka og af því að annmarkar eru á beitingu EES-reglna. Samningsbrotamálum hefur fjölgað mjög frá síðasta frammistöðumati og eru nú orðin 236 í stað 181 í maí 2013. Fjölgar málum gegn Íslandi langmest. ESA hefur áhyggjur af þessari öfugþróun hjá EFTA-ríkjunum og mun leita leiða til að tryggja að EFTA-ríkin innleiði nýjar gerðir á réttum tíma.

Frammistöðumatið sýnir mikla öfugþróun hjá EFTA-ríkjunum. Ég hvet þau til að taka sig á og vinda ofan af vandanum. Tímanleg innleiðing sameiginlegra reglna á Evrópska efnahagssvæðinu er forsenda þess að hægt sé að tryggja jafnræði á innri markaðnum. EFTA-ríkin verða að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að að virða skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum segir Oda Helen Sletnes, forseti ESA.  

 


Frekari upplýsingar veitir:

Ólafur Jóhannes Einarsson
Framkvæmdastjóri, Innra markaðsviðs  
sími: (+32)(0)2 286 18 73

 
Other EEA Institutions


imgbanner3
This website is built with Eplica CMS