Browse by year:


Internal Market

Frammistöðumat Evrópska efnahagssvæðisins: Ísland og Noregur enn með lélegustu frammistöðu allra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu

17.7.2014

PR(14)56 - Icelandic version

Frammistöðumat Eftirlitsstofunar EFTA (ESA) á innleiðingu tilskipana og reglugerða á Evrópska efnahagssvæðinu leiðir í ljós að Ísland og Noregur eru enn með verstu frammistöðu allra 31 EES ríkjanna, þ.e. EFTA-ríkjanna þriggja og 28 aðildarríkja ESB. 

Því miður birtast þau tíðindi enn og aftur í frammistöðumati ESA að Ísland og Noregur standa sig verst allra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er til þess fallið að grafa undan því jafnræði sem innri markaðurinn byggist á. Það er óviðunandi ef löggjöf á svæðinu er ekki samstæð og ESA hlýtur að leita leiða til að tryggja að EFTA-ríkin virði skuldbindingar sínar”, segir Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður í ESA.

Skýrslan, sem er gefin út tvisvar á ári, sýnir frammistöðu EFTA-ríkjanna við innleiðingu EES-gerða í landsrétt. Innleiðingarhalli tilskipana sýnir hlutfall tilskipana sem ekki hafa verið innleiddar eða ESA hefur ekki verið tilkynnt um innleiðingu á innan réttra tímamarka. Rétt er taka fram, að innleiðingarhallinn tekur aðeins til tafa á innleiðingu á gerðum sem EFTA-ríkin eru skuldbundin til að innleiða á grundvelli EES-samningsins. 

Innleiðingarhalli Íslands er 3,1% sem samsvarar því að 34 tilskipanir hafa ekki verið innleiddar að fullu á réttum tíma. Innleiðingarhallinn þegar síðasta frammistöðumat var gert var 3,2%. Í bæði skiptin var Ísland með langmesta innleiðingarhallann af öllum EES-ríkjunum.

Í Noregi jókst innleiðingarhalli tilskipana lítils háttar frá síðasta frammistöðumati og fór hann úr 1,8% í 1,9%. Þetta þýðir að 21 tilskipun hefur ekki verið innleidd á réttum tíma. Er Ísland eitt allra EES-ríkja með meiri halla.

Liechtenstein hefur 0,7% innleiðingarhalla og er það í samræmi við meðaltal í ríkjum ESB. Þar hafa 8 tilskipanir ekki verið innleiddar á réttum tíma.

Innleiðingarhalli EFTA-ríkjanna þriggja er nú 1,9% að meðaltali og er það örlítil framför frá síðasta frammistöðumati þegar innleiðingarhallinn var 2%. Til samanburðar er innleiðingarhallinn að meðaltali 0,7% í ríkjum ESB. Aðeins fimm ESB ríki voru með innleiðingarhalla umfram 1% viðmiðið og ekkert ESB ríki var með innleiðingarhalla yfir 1,5%.

Í frammistöðumatinu kemur einnig fram hversu mörg samningsbrotamál gegn EFTA-ríkjunum eru til meðferðar hjá ESA, sem stafa af því að tilskipanir og reglugerðir eru ekki innleiddar innan tímamarka. Samningsbrotamál af þeim toga eru nú 177 talsins.

ESA hefur einnig vísað fjölda mála til EFTA-dómstólsins þar sem Ísland og Noregur hafa vanefnt að innleiða EES-gerðir í landsrétt.

 

Sé frekari upplýsinga óskað, vinsamlega hafið samband við:

Andreas Kjeldsberg Pihl
Upplýsingafulltrúi
Sími.
(+32)(0)2 286 18 66
Farsími. (+32)(0)492 900 187

 
Other EEA Institutions


imgbanner5
This website is built with Eplica CMS