Browse by year:


Internal Market

Matvælaöryggi: Annmarkar á opinberu eftirliti með velferð dýra við aflífun þeirra

5.9.2014

PR(14)57 - Icelandic version

Íslensk yfirvöld þurfa að bæta opinbert eftirlit með velferð dýra við aflífun þeirra til að tryggja að það samræmist að fullu löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu. Ennfremur þarf að tryggja að brugðist sé við ef reglum er ekki fylgt.

Þetta er helsta niðurstaða skýrslu sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) birtir í dag. Skýrslan er gerð í kjölfar úttektar sem fór fram í maí 2014.

Úttektin var sú fyrsta sem ESA hefur gert á Íslandi varðandi velferð dýra. Löggjöf EES-samningsins um dýravelferð gildir ekki á Íslandi að undanskilinni löggjöf um aflífun dýra sem tók gildi 1. janúar 2013. Í úttektinni var aðaláhersla á að sannprófa að opinbert eftirlit sem er á ábyrgð Matvælastofnunar (MAST) og innra eftirlit sláturhúsa sé í samræmi við löggjöf EES-samningsins.

Úttekt ESA leiddi í ljós að í flestum tilfellum er reglum varðandi aflífun dýra fylgt. MAST hefur lagt áherslu á að þjálfa lykilstarfsmenn,veita fræðslu til rekstraraðila og uppfæra það opinbera eftirlitskerfi sem fyrir hendi var. Úttektin leiddi þó í ljós ákveðna annmarka á opinberu eftirliti á Íslandi.

Við slátrun alifugla er ekki tryggt að lágmarkskröfum varðandi lykilmæliþætti við deyfingu sé fylgt. Þá er innra eftirliti rekstraraðila ábótavant. Í skýrslunni kemur einnig fram að MAST framfylgir ekki að fullu þeirri löggöf sem í gildi er. 

Í skýrslunni eru tilmæli til íslenskra stjórnvalda um að bregðast við því sem áfátt er og  styrkja núverandi eftirlitskerfi til að bæta úr annmörkum til framtíðar.

Íslensk stjórnvöld hafa tekið athugasemdir ESA til greina og lagt fram tímasetta aðgerðaráætlun. Áætlunin og athugasemdir íslenskra stjórnvalda koma fram í viðauka 3 við skýrsluna og eru til skoðunar hjá ESA.

 

Skýrsluna má finna hér

 

Frekari upplýsingar veitir:

Mr. Andreas Kjeldsberg Pihl
Upplýsingafulltrúi
Sími (+32)(0)2 286 18 66
Farsími (+32)(0)492 900 187
Other EEA Institutions


imgbanner4
This website is built with Eplica CMS