Browse by year:


State Aid

Ísland hefur ekki sinnt fyrirmælum um að stöðva og endurheimta ólögmæta ríkisaðstoð og er því stefnt fyrir EFTA-dómstólinn

16.9.2015

PR(15)44 - Icelandic version

EN | IS

Í október 2014 gaf Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) íslenskum stjórnvöldum fyrirmæli um að stöðva allar greiðslur á grundvelli laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Íslenskum stjórnvöldum var að auki fyrirskipað að endurheimta þá ríkisaðstoð sem þegar hafði verið veitt á grundvelli laganna. Rannsókn ESA hafði þá leitt í ljós að ríkisaðstoð í fimm ívilnunarsamningum sem Ísland gerði var hvorki í samræmi við styrktarkerfið sem ESA hafði samþykkt né ríkisstyrkjareglur EES. Þar sem íslensk stjórnvöld hafa ekki orðið við fyrirmælum ESA var í dag ákveðið að vísa málinu til EFTA-dómstólsins.

«Tafir á endurheimtu ólögmætrar ríkisaðstoðar viðhalda þeirri samkeppnisröskun sem aðstoðin hefur í för með sér. Það er óviðunandi að nærri ári eftir að endanleg ákvörðun stofnunarinnar lá fyrir hefur Ísland enn ekki stöðvað eða endurheimt ólögmæta ríkisaðstoð. ESA á ekki önnur úrræði í þessari stöðu en að vísa málinu til EFTA-dómstólsins», segir Sven Erik Svedman forseti ESA.

Í kjölfar formlegrar rannsóknar komst ESA árið 2014 að þeirri niðurstöðu að ívilnunarsamningar íslenskra stjórnvalda við fimm fyrirtæki: Becromal, Verne, Íslenska Kísilfélagið, Thorsil og GMR Endurvinnsluna, fælu í sér ríkisaðstoð sem gengi gegn EES-samningnum. Íslenskum stjórnvöldum var fyrirskipað að stöðva tafarlaust allar frekari greiðslur ríkisaðstoðar á grundvelli ívilnunarsamninganna fimm og sjá til þess að endurheimta alla aðstoð sem þegar hafði verið veitt innan fjögurra mánaða, þ.e.a.s. fyrir 9. febrúar 2015. Þar að auki bar íslenskum stjórnvöldum að tilkynna ESA fyrir 9. desember 2014 heildarfjárhæð ólögmætrar aðstoðar sem veitt hafði verið og fyrirhugaðar ráðstafanir til að endurheimta hana.

Nærri ári eftir ákvörðun ESA hafa íslensk stjórnvöld enn ekki uppfyllt neina af þeim þremur kvöðum sem mælt var fyrir um í umræddri ákvörðun.


Frekari málavextir

Í október 2010 samþykkti ESA styrkjakerfi til nýfjárfestinga sem íslensk stjórnvöld höfðu samþykkt til að efla atvinnuþróun á landsbyggðinni. Styrkjakerfið byggðist á lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Lögin heimiluðu ríkisstyrki til fyrirtækja einkum í formi skattaívilnana og á þeim grundvelli undirrituðu íslensk stjórnvöld ívilnunarsamninga við fyrirtækin fimm á tímabilinu 2010-2012. Lögin féllu úr gildi í árslok 2013.

Í apríl 2013 ákvað ESA að hefja formlega rannsókn á ríkisaðstoð á grundvelli styrkjakerfisins, breytingum sem gerðar höfðu verið á því og ívilnunarsamningum sem undirritaðir höfðu verið. Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort ríkisaðstoðin væri í samræmi við EES-samninginn.

Í október 2014 komst ESA að þeirri niðurstöðu að breytingarnar sem gerðar höfðu verið á styrkjakerfinu og þeir fimm ívilnanasamningar sem undiritaðir höfðu verið á grundvelli þess fælu í sér ríkisaðstoð sem gengi gegn EES-samningnum. Ríkisaðstoð sem veitt hafði verið á grundvelli samninganna var því hvorki í samræmi við það kerfi sem ESA hafði samþykkt  né ríkisstyrkjareglur EES. Ákvörðun ESA var ekki áfrýjað.


Frekari upplýsingar

 Önnur gögn er málið varða

 

Nánari upplýsingar veitir:

Andreas Kjeldsberg Pihl
Upplýsingafulltrúi
Sími. +32 2 286 18 66
Farsími. +32 492 900 187

Other EEA Institutions


imgbanner4
This website is built with Eplica CMS