Browse by year:


State Aid

Lánssamningar Seðlababankans við Íslandsbanka og Arion banka fólu ekki í sér ríkisaðstoð

23.11.2016

PR(16)52 – Icelandic version

EN  | IS

Lánssamningar sem Seðlabanki Íslands gerði við Íslandsbanka hf. og Arion banka hf. í kjölfar bankahrunsins voru gerðir á markaðskjörum og fólu því ekki í sér ríkisaðstoð.  Þetta er niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), sem tók málið til skoðunar eftir að kvörtun hafði borist.

Formleg rannsókn hófst í maí 2015. Meðan á rannsókn málsins stóð aflaði ESA gagna varðandi lánskjör í sambærilegum lánssamningum frá sama tíma, meðal annars frá aðilum málsins. Gögnin sýndu að lánaskilmálarnir sem Seðlabanki Íslands samþykkti voru í samræmi við markaðskjör á þeim tíma sem samningarnir voru undirritaðir. Með samningunum var Seðlabankinn því að verja hagsmuni sína og hámarka endurheimtur af lánunum.

ESA komst að þeirri niðurstöðu að umræddar ráðstafanir væru í samræmi við það sem almennur lánveitandi hefði gert í sömu stöðu. Þar af leiðandi fólu samningarnir ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningssins.

Forsaga málsins

Málið varðar tvo lánssaminga milli Seðlabanka Íslands og Íslandsbanka (áður Glitnis) og Seðlabankans og Arion banka (áður Kaupþings). Samningarnir voru undirritaðir í september 2009 og janúar 2010. Með samningunum var skammtíma veðlánum og verðbréfalánum frá Seðlabanka Íslands skuldbreytt í lán til langs tíma.

Umrædd skammtíma veðlán voru á sínum tíma veitt með veði í ýmsum skuldabréfum, þar á meðal veðum í húsnæðislánasafni bankanna tveggja. Við endurfjármögnun nýju bankanna (Íslandsbanka og Arion banka), voru innlendar eignir og skuldbindingar forvera þeirra, Glitnis and Kaupþings, færðar til nýju bankanna. Þar á meðal voru skuldbindingar gagnvart Seðlabanka Íslands. Skuldir bankanna við Seðlabankann voru í formi skammtíma veðlána.  Krafa um tafarlausa endurgreiðslu þeirra hefði haft veruleg áhrif á lausafjárstöðu nýju bankanna tveggja og dregið úr líkum Seðlabankans á að fá lánin endurgreidd að fullu.

Ákvörðunin verður innan skamms birt á vefsíðu ESA, í Stjórnartíðindum Evrópu-sambandsins og EFTA viðauka þeirra.

Nánari upplýsingar veitir:

Anne Vestbakke
Samskiptastjóri
Sími. +32 2 286 18 66
Farsími. +32 490 57 63 53
Other EEA Institutions


imgbanner1
This website is built with Eplica CMS