Browse by year:


State Aid

Ríkisaðstoð: ESA heimilar björgunaraðstoð til Íbúðalánasjóðs

16.3.2011

PR(11)16 - Icelandic version
Með ákvörðun sinni í dag hefur ESA samþykkt með fyrirvara 33 milljarða króna framlag íslenska ríkisins til Íbúðalánasjóðs.


Samþykki ESA fyrir ríkisaðstoðinni er tímabundið og háð því skilyrði að íslensk stjórnvöld leggi fyrir ESA nákvæma áætlun um endurskipulagningu sjóðsins fyrir septemberlok 2011.

Framlag ríkisins er veitt til að viðhalda eigin fé Íbúðalánasjóðs og gefa sjóðnum færi á að afskrifa tiltekin íbúðalán.

Það er fyrst of fremst íslenska þjóðin sem nýtur góðs af aðgerðinni, þar sem framlagið kemur viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs til góða með afskriftum íbúðalána þeirra ”, segir Per Sanderud, forseti eftirlitsstofnunar EFTA.

Frá því fjármálakreppan skall á á Íslandi í október 2008 hefur fjöldi heimila lent í greiðsluerfiðleikum með íbúðalán og er íbúðarhúsnæði í sumum tilvikum yfirveðsett. Til að bregðast við þessu hefur ríkisstjórn Íslands ásamt öllum lánveitendum íbúðalána (Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og viðskiptabankar) nýverið tekið höndum saman um að lækka tiltekin íbúðalán í 110% af virði hins veðsetta íbúðarhúsnæðis.

Virði eigna Íbúðalánasjóðs mun minnka verulega vegna ofangreinds samkomulags lánveitenda. Að óbreyttu myndi það hafa í för með sér verulega lækkun eiginfjárhlutfalls Íbúðalánasjóðs og ætti hann á hættu að verða ógjaldfær. Hafa íslensk yfirvöld því ákveðið að leggja sjóðnum til nýtt fé til að koma í veg fyrir hin neikvæðu áhrif, einkanlega með vísan til þess hlutverks sjóðsins að fjármagna sig á íslenskum fjármálamarkaði með skuldabréfaútgáfu. Þessi aðgerð hefur það markmið einnig að koma í veg fyrir skaða annarra aðila á markaði og íslensks efnahagslífs í heild.

Íbúðalánasjóður, sem er í eigu íslenska ríkisins, starfar sjálfstætt á grundvelli laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Meginmarkmið sjóðsins er að annast lánveitingar til einstaklinga, sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði. Sjóðurinn er ekki fjármagnaður beint af íslenska ríkinu heldur með tekjum af eigin fé, útgáfu skuldabréfa (íbúðabréfa) sem og með þjónustugjöldum. Íbúðalánasjóði er einnig falið opinbert hlutverk að því er varðar öflun íbúðarhúsnæðis á Íslandi. Umfang hins opinbera hlutverks sjóðsins er enn til athugunar hjá ESA.

 

Frekari upplýsingar veitir:

Per Andreas Bjørgan
Framkvæmdastjóri samkeppnis- og ríkisstyrkjasviðs
sími: +32 2 286 18 36
farsími: +32 477 263 027
Other EEA Institutions


imgbanner4
This website is built with Eplica CMS