Browse by year:


State Aid

Ríkisaðstoð: Verne gagnaveri gert að endurgreiða ríkisaðstoð sem veitt var í bága við EES-samninginn

4.7.2012

PR(12)43 - Icelandic version

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að biðja íslenska ríkið um að endurheimta ríkisaðstoð að andvirði 220 milljónir króna frá Verne gagnaveri. Jafnframt var komist að niðurstöðu um að orkukaupasamningur Verne við Landsvirkjun og lóðaleigusamningur við íslenska ríkið fælu ekki í sér ríkisaðstoð.

Ríkisaðstoðin var veitt árið 2008 þegar ríkið seldi Verne fimm byggingar á gamla varnarliðssvæðinu við Keflavíkurflugvöll undir markaðsvirði. Muninn á markaðsvirði og söluvirði bygginganna fimm þarf að endurheimta frá fyrirtækinu.

Reykjanesbær hefur að auki veitt Verne undanþágu frá fasteigna- og gatnagerðargjöldum frá árinu 2009. ESA hefur komist að niðurstöðu um að þessar undanþágur séu ósamræmanlegar EES-samningnum og skuli því einnig endurheimtar frá Verne.

„Við sölu á fasteignum geta yfirvöld með einföldum hætti komist hjá því að veita ríkisaðstoð. Markaðsvirði er hægt að ákveða annað hvort á grundvelli óskilyrts útboðs eða á grundvelli óháðs sérfræðimats. ESA mun ævinlega fara fram á endurheimtur á allri ótilkynntri ríkisaðstoð sem samræmist ekki EES-samningnum og veitt hefur verið í bága við skyldu yfirvalda til að bíða samþykkis ESA,“ segir Oda Helen Sletnes forseti ESA.

Íslensk yfirvöld áformuðu upphaflega að veita svæðisbundna ríkisaðstoð til byggingar gagnaversins í formi undanþágu frá opinberum gjöldum. ESA hafði hins vegar efasemdir um að slík ríkisaðstoð samræmdist EES samningnum og opnaði því formlega rannsókn í nóvember 2010.

Íslensk yfirvöld drógu tilkynninguna til ESA um veitingu undanþágunnar frá opinberum gjöldum til baka árið 2011. Þess í stað var Verne veitt skattaívilnun á grundvelli áætlunar um ívilnanir til nýfjárfestingar sem samþykkt var af ESA árið 2010. Veiting einstakra styrkja undir þessari áætlun er háð mati íslenskra yfirvalda sem síðan skulu skila skýrslu um þá til ESA. Þessar styrkveitingar eru því ekki efni ákvörðunarinnar sem ESA hefur tekið í dag.

ESA hefur með ákvörðuninni í dag jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að orkukaupasamningur Verne við Landsvirkjun og lóðaleigusamningur við íslenska ríkið feli ekki í sér ríkisaðstoð.

Orkukaupasamningurinn veitir Verne í áföngum allt að 25 MV rafmagns til kælingar fyrirhugaðs gagnavers. ESA hefur komist að niðurstöðu um að hann hafi verið gerður á grundvelli markaðssjónarmiða og feli því ekki í sér ríkisaðstoð.

Jafnframt hefur ESA komist að niðurstöðu um að lóðaleigusamningur á 9.6 hektara lóð til Verne hafi verið á kjörum sem einkafjárfestum hefðu þótt ásættanleg og feli því ekki í sér ríkisaðstoð.

Framfylgja skal endurheimtuákvörðuninni innan fjögurra mánaða frá deginum í dag að telja og skal aðstoðin endurheimt ásamt vöxtum og vaxtavöxtum frá þeim tíma er aðstoðin var veitt á árunum 2008 og 2009.

Ákvörðun ESA í dag verður birt á heimasíðu stofnunarinnar innan mánaðar.

 

Frekari upplýsingar veitir:

Mr. Trygve Mellvang-Berg
Upplýsingafulltrúi ESA
sími +32 2 286 18 66
farsími +32 492 900 187

 

 

 

 

 

 

 
Other EEA Institutions


imgbanner2
This website is built with Eplica CMS