Browse by year:


State Aid

Ríkisaðstoð: Ríkisaðstoð til átta fjárfestingarsjóða er samræmanleg EES samningnum

11.7.2012

PR(12)48 - Icelandic version

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur í dag komist að niðurstöðu um að ríkisaðstoð hafi falist í kaupum þriggja stóru íslensku viðskiptabankanna á eignum í vörslu átta fjárfestingarsjóða í október 2008 að fjárhæð 82,2 milljarðar króna, en bankarnir voru þá að fullu í eigu ríkisins. Með vísan til alvarlegrar röskunar á efnahag Íslands á umræddum tíma kemst ESA að niðurstöðu um að ríkisaðstoðin sé samræmanleg við EES samninginn.


Málið var byggt á kvörtun frá nokkrum samkeppnisaðilum bankanna þriggja og dótturfyrirtækja þeirra. ESA hóf formlega rannsókn á kvörtuninni í september 2010.

Vegna mikils taps og áhlaups á sjóðina af hendi fjárfesta, gaf Fjármálaeftirlitið út tilmæli þann 17. október 2008 um að rekstrarfélög skyldu gera upp alla svokallaða peningamarkaðssjóði.

  • Nýi Glitnir keypti skuldabréf Sjóðs 9 sem rekinn var af dótturfélagi bankans, Glitni Sjóðum.
  •  Nýi Landsbankinn keypti skuldabréf af fimm fjárfestingarsjóðum reknum af dótturfélaginu Landsvaka
  •  Nýja Kaupþing keypti skuldabréf af Peningamarkaðssjóði og Skammtímasjóði reknum af dótturfélaginu Rekstrarfélagi Kaupþings banka.

Hinar keyptu eignir voru að stórum hluta skuldabréf útgefin af föllnu bönkunum og skuldabréf útgefin af fyrirtækjum í eigu eða undir stjórn eigenda föllnu bankanna.

Fjöldi aðila hafði fjárfest í umræddum sjóðum, allt frá stofnanafjárfestum á borð við lífeyrissjóði, til fyrirtækja og einstaklinga. Fjárfestar í umræddum sjóðum fengu greitt út á milli 60 og 85% af lokagengi hlutar síns í sjóðunum eftir því um hvaða sjóð var að ræða.

ESA lítur svo á að kaupin á skuldabréfasöfnunum, sem sýnilega höfðu skerst verulega í virði, hafi verið fjármögnuð af ríkisfjármunum og að ákvarðanirnar um kaupin megi rekja til íslenska ríkisins. Þegar kaupin áttu sér stað höfðu bankarnir verið þjóðnýttir og var stjórnað af bráðabirgðastjórnum skipuðum embættismönnum íslenska ríkisins að meginhluta. Bankarnir störfuðu á grundvelli bráðabirgða efnahagsreikninga, með takmarkað ráðstöfunarfé, og á grundvelli undanþágu frá lágmarks eiginfjárhlutfalli.

Einkafjárfestir hefði ekki keypt eignirnar á þessu verði þar sem virði þeirra var mjög óvíst á umræddum tíma. Ávinningurinn beindist að völdum fyrirtækjum og var líklegur til þess að raska samkeppni og hafa áhrif á viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu. Af þessum ástæðum fólu kaupin í sér ríkisaðstoð.

Þrátt fyrir þetta lítur ESA svo á að ríkisaðstoðin sé samrýmanleg ákvæðum EES samningsins á grundvelli greinar 61(3)(b) sem veitir undanþágu til veitingar ríkisaðstoðar vegna alvarlegrar röskunar á efnahag EES ríkis. Í október 2008 hafði íslenski fjármálageirinn hrunið og stjórnvöld gripið til neyðarúrræða til að ná tökum á efnahagsástandinu. ESA lítur svo á að ráðstafanirnar sem hér um ræðir hafi verið nauðsynlegar til þess að endurbyggja traust á fjármálageiranum. Í því tilliti voru úrræðin nauðsynleg og í samræmi við meðalhóf að því marki að skýla fjárfestum frá enn stærra tapi á sparifé sínu.

Ákvörðun ESA í dag verður birt á heimasíðu stofnunarinnar innan mánaðar.

 

 Frekari upplýsingar veitir:

 

Mr. Trygve Mellvang-Berg
Upplýsingafulltrúi ESA
sími +32 2 286 18 66
farsími +32 492 900 187

 

 

 

 

 

 

 

 

 
Other EEA Institutions


imgbanner5
This website is built with Eplica CMS