Browse by year:


State Aid

Ríkisaðstoð: ESA samþykkir aðstoð vegna endurreisnar tveggja íslenskra sparisjóða

18.12.2013

PR(13)90 - Icelandic version

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti í dag ríkisaðstoð vegna endurreisnar tveggja íslenskra sparisjóða, Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðfjarðar. Aðstoðin var veitt og samþykkt tímabundið í júní 2010 og apríl 2011 sem hluti af aðstoðaráætlun til björgunar fimm smærri sparisjóða, en í kjölfarið urðu tafir á framlagningu áætlana um endurskipulagningu sparisjóðanna.

“Mér þykir miður að það hafi tekið mun lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir að ljúka gerð trúverðugra áætlana um endurskipulagningu sparisjóðanna. Íslensk stjórnvöld verða nú að taka endanlegar ákvarðanir um framtíð hinna sparisjóðanna þriggja, en endurreisn þeirra hefur enn ekki verið samþykkt af ESA. Slíkar ákvarðanir gætu annað hvort falið í sér framlagningu áætlana sem sýna fram á rekstrarhæfi sparisjóðanna til lengri tíma eða að sjóðirnir verði settir í slitameðferð.” segir Oda Helen Sletnes, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA.

Sparisjóður Vestmannaeyja sinnir almennri bankaþjónustu á Suður- og Suðausturlandi. Hann tekur við innlánum og veitir einstaklingum og smærri fyrirtækjum lán, auk þessa að sinna annarri tengdri fjármálaþjónustu. Í lok árs 2012 námu heildareignir sparisjóðsins samtals 13 milljörðum króna. Sparisjóður Norðfjarðar sinnir hliðstæðri bankaþjónustu í Norðfirði og nágrenni. Heildareignir sparisjóðsins námu 5,2 milljörðum króna í árslok 2012. 

Áhrif efnahagshrunsins á íslenska sparisjóði
Efnahagshrunið hafði neikvæð áhrif á afkomu íslenskra sparisjóða sem í kjölfarið áttu í miklum rekstrarvanda. Flestir sparisjóðir áttu hlut í stóru viðskiptabönkunum, þar á meðal Sparisjóðabanka Íslands hf., sem stofnaður var af sparisjóðunum og gegndi lykilþjónustuhlutverki fyrir þá. Í kjölfar hruns viðskiptabankanna þriggja, í október 2008, ákvað Fjármálaeftirlitið í mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar í Sparisjóða-bankanum og mælti fyrir um ráðstöfun eigna og skulda bankans. Var Seðlabanki Íslands gerður ábyrgur fyrir innstæðum sparisjóðanna hjá Sparisjóðabankanum. Á móti tók Seðlabankinn yfir kröfur Sparisjóðabankans á hendur sparisjóðunum og varð þannig helsti lánveitandi þeirra.

Ráðstafanir til endurreisnar á sparisjóðunum
Ráðstafanir sem fela í sér ríkisaðstoð eru:

  • Uppgjör krafna Seðlabankans á hendur sparisjóðunum. Kröfur Seðlabankans hafa ýmist verið afskrifaðar eða þeim verið breytt í hlutafé, víkjandi lán og almenn lán.
  • Seðlabankinn hefur ábyrgst innlán sparisjóðanna í Sparisjóðabankanum.
  • Íslenska ríkið hefur með yfirlýsingu gengist í ábyrgð fyrir innlánum í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum.

Auk þessara ráðstafana hefur verið ráðist í almenna fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna, sem felur m.a. í sér að gerðir hafa verið samningar við aðra lánveitendur, stofnfé fyrri eigenda hefur verið fært niður og nýir fjárfestar hafa lagt til aukið stofnfé.

Við mat sitt á þessu máli hefur ESA byggt m.a. á leiðbeinandi reglum sem stofnunin setti í tengslum við fjármálakreppuna og varða endurreisn fjármálafyrirtækja. Hefur ESA komist að þeirri niðurstöðu að ráðstafanirnar séu líklegar til að tryggja rekstrarhæfi sparisjóðanna tveggja til framtíðar. Þá geti sparisjóðirnir í kjölfarið uppfyllt kröfur FME um lágmarkshlutfall eigin fjár. Einnig hefur ESA litið til þess að sparisjóðirnir og stofnfjáreigendur þeirra hafa lagt fram hæfilegt framlag til endurskipulagningarinnar. Í ljósi takmarkaðrar samkeppnisröskunar vegna ráðstafananna og lítilla áhrifa þeirra á viðskipti milli aðildarríkja EES-samningsins, hefur ESA ákveðið að samþykkja endurreisnaráætlanir sparisjóðanna þrátt fyrir að þær feli ekki í sér nein sérstök úrræði til að draga úr röskun á samkeppni.

 

Opinberar útgáfur framangreindra ákvarðanna ESA verða birtar á vefsíðu stofnunarinnar, að öllu jöfnu innan eins mánaðar.

 

Frekari upplýsingar veitir:

Andreas Kjeldsberg Pihl
Upplýsingafulltrúi
Sími.
(+32)(0)2 286 18 66
Farsími. (+32)(0)492 900 187Other EEA Institutions


imgbanner2
This website is built with Eplica CMS