Browse by year:


State Aid

Ríkisaðstoð: Íslensk lög um virðiskaukaskatt fólu í sér ólögmæta ríkisaðstoð á tímabilinu 2011–2013

8.5.2014

PR(14)31 - Icelandic version

Eftir ítarlega rannsókn komst Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í dag að þeirri niðurstöðu að breytingar sem gerðar voru á íslenskum lögum um virðisaukaskatt, og vörðuðu viðskiptavini gagnavera, hafi falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð.

Skömmu eftir að ESA hóf rannsókn sína var lögum um virðisaukaskatt breytt og þar með felld úr gildi þau ákvæði sem ESA hafði lýst efasemdum um.

Íslenskum stjórnvöldum er með ákvörðun ESA gert að endurheimta þá ólögmætu ríkisaðstoð sem veitt var á gildistíma laga frá 1. maí 2011 til 13. mars 2013.

“Þessi ákvörðun sýnir hve mikilvægt er að EFTA ríkin leiti eftir samþykki ESA áður en aðgerðum sem kunna að fela í sér ríkisaðstoð er hrundið í framkvæmd. ESA mun ávallt fara fram á að ríki endurheimti ólögmæta aðstoð sem ekki hefur verið fyrirfram samþykkt af hálfu stofnunarinnar.” segir Oda Helen Sletnes forseti ESA.

Í janúar 2013 opnaði ESA formlega rannsókn á ríkisaðstoð í tengslum við umrædda lagabreytingu. Íslensk stjórnvöld tilkynntu ESA ekki um breytingarnar fyrr en eftir að þær höfðu öðlast gildi en í þeim fólust eftirfarandi nýmæli:

  • Virðisaukaskattur var ekki lagður á rafrænt afhenta þjónustu gagnavera til kaupenda sem búsettir voru erlendis og höfðu ekki fasta starfsstöð á Íslandi;
  • Virðisaukaskattur var ekki lagður á blandaða þjónustu gagnavera til kaupenda sem búsettir voru erlendis og höfðu ekki fasta starfsstöð á Íslandi;
  • Innflutningur á netþjónum og tengdum búnaði var undanþeginn virðisaukaskatti þegar eigendur þeirra höfðu ekki búsetu á Íslandi og voru ekki með fasta starfstöð þar.

Tilgangurinn með lagabreytingunni var tvíþættur samkvæmt upplýsingum íslenskra stjórnvalda. Í fyrsta lagi að bæta samkeppnisstöðu íslenskra gagnavera og tryggja að viðskiptaumhverfið, hvað varðar virðisaukaskatt, væri sambærilegt því sem gengur og gerist í aðildaríkjum Evrópusambandsins. Í öðru lagi var ætlunin að ýta undir nýtingu íslenskra nátturauðlinda til handa gagnaveraiðnaðinum.

ESA komst að þeirri niðurstöðu að sá hluti lagabreytingarinnar sem sneri að rafrænt afhentri þjónustu gagnavera til kaupenda sem búsettir voru erlendis, fæli ekki í sér ríkisaðstoð enda samrýmdist breytingin þeirri meginreglu að virðisaukaskattur sé ekki lagður á vörur og þjónustu sem seld er úr landi. Hins vegar taldi ESA nauðsynlegt að rannsaka hvort hinar lagabreytingarnar tvær fælu í sér ríkisaðstoð, og ef svo væri hvort aðstoðin samrýmdist EES samningnum.

ESA hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að þær lagabreytingar sem rannsóknin tók til feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð sem beri að endurheimta. Skal hin ólögmæta aðstoð, ásamt vöxtum og vaxtavöxtum frá þeim tíma er aðstoðin var veitt, endurheimt innan fjögurra mánaða.

Opinber útgáfa ákvörðunar ESA verður birt á vefsíðu stofnunarinnar, að öllu jöfnu innan eins mánaðar.

 

Frekari upplýsingar veitir:

Andreas Kjeldsberg Pihl
Upplýsingafulltrúi
Sími. (+32)(0)2 286 18 66
Farsími. (+32)(0)492 900 187
Other EEA Institutions


imgbanner5
This website is built with Eplica CMS