Browse by year:


State Aid

Ríkisaðstoð: Ísland þarf að endurheimta ólögmæta ríkisaðstoð sem veitt var til nýfjárfestinga

8.10.2014

PR(14)64 - Icelandic version

Ívilnunarsamningar íslenskra stjórnvalda við fimm fyrirtæki: Becromal, Verne, Íslenska Kísilfélagið, Thorsil og GMR Endurvinnsluna, fólu í sér ríkisaðstoð sem gengur gegn EES-samningnum. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur því gefið íslenskum stjórnvöldum fyrirmæli um að endurheimta alla þá ríkisaðstoð sem veitt var á grundvelli umræddra samninga.

“Íslandi er heimilt að veita ríkisaðstoð til að stuðla að aukinni fjárfestingu og nýjum atvinnumöguleikum á svæðum sem eiga undir högg að sækja. Hins vegar er nauðsynlegt að gengið sé úr skugga um að þau skilyrði sem sett eru fyrir slíkri aðstoð í EES samningnum séu uppfyllt, að aðstoðin sé tilkynnt ESA og að samþykki stofnunarinnar liggi fyrir. Íslensk stjórnvöld verða nú að endurheimta þá aðstoð sem veitt var á grundvelli þeirra fimm ívilnunarsamninga sem rannsókn ESA tók til.”, segir Oda Helen Sletnes forseti ESA.

Í október 2010 samþykkti ESA styrkjakerfi til nýfjárfestinga sem íslensk stjórnvöld höfðu ákveðið til að efla atvinnuþróun á landsbyggðinni. Styrkjakerfið sem Ísland kom á fót byggðist á lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Lögin heimiluðu ríkisstyrki til fyrirtækja einkum í formi skattaívilnana og á þeim grundvelli undirrituðu íslensk stjórnvöld ívilnunarsamninga við fyrirtækin fimm á tímabilinu 2010-2012. Lögin féllu úr gildi í árslok 2013.

Í apríl 2013 ákvað ESA að hefja formlega rannsókn á ríkisaðstoð á grundvelli styrkjakerfisins, breytingum sem gerðar höfðu verið á því og ívilnunarsamningum sem undirritaðir höfðu verið. Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort ríkisaðstoðin væri í samræmi við EES-samninginn.

Niðurstaða rannsóknar ESA er að fyrirtækin Becromal og Verne hafi verið búin að taka ákvarðanir um fjárfestingu á Íslandi og ráðist í framkvæmdir án fyrirheita um ríkisaðstoð.  Til að ríkisaðstoð sé lögmæt þarf hún að hvetja til nýfjárfestingar sem hefði annars ekki orðið. Ríkisaðstoðin var því ekki í samræmi EES-samninginn og ber íslenskum stjórnvöldum að endurheimta hana ásamt vöxtum og vaxtavöxtum frá þeim tíma sem aðstoðin var veitt.

ESA hefur auk þess komist að þeirri niðurstöðu að ívilnunarsamningar vegna verksmiðja sem Íslenska Kísilfélagið fyrirhugaði í Helguvík og Thorsil í Þorlákshöfn sem og verksmiðju GMR Endurvinnslunnar sem starfrækt er í Grundartanga feli í sér rekstraraðstoð en ekki fjárfestingaraðstoð. Gengur því aðstoðin gegn EES-samningnum. Íslenskum stjórnvöldum ber að endurheimta aðstoð sem veitt var á grundvelli samninganna.

Ákvörðunin verður birt innan skamms á vefsíðu ESA og í stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

Önnur gögn er málið varða:

 Frekari upplýsingar veitir:

Andreas Kjeldsberg Pihl
Upplýsingafulltrúi
Sími. (+32)(0)2 286 18 66
Farsími. (+32)(0)492 900 187
Other EEA Institutions


imgbanner2
This website is built with Eplica CMS