Samanburðarskýrsla ESA um ríkisaðstoð: útgjöld lækka í Noregi en hækka á Íslandi og í Liechtenstein
PR(16)12 - Icelandic version
Útgjöld Íslands og Liechtenstein vegna ríkisaðstoðar hækkuðu á árinu 2014 en lækkuðu lítillega í Noregi. Heildarútgjöld EFTA-ríkjanna fóru lækkandi líkt og undanfarin ár. Stærsti hluti aðstoðar var til byggðaþróunar, en á eftir fylgdi aðstoð til umhverfisverndar og orkusparnaðar. Sáralítil aðstoð var bundin einstökum atvinnugreinum. Þetta kemur fram í nýjustu samanburðarskýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um útgjöld til ríkisaðstoðar í EES EFTA-ríkjunum (Ísland, Liechtenstein og Noregur), en skýrslan er birt í dag.
Ríkisaðstoð er aðstoð sem hið opinbera veitir atvinnulífinu og er hún veitt með ýmsum hætti. Samanburðarskýrslan er birt árlega og sýnir þróun ríkisaðstoðar í EFTA-ríkjunum sem og almennt á Evrópska efnahagssvæðinu.
Í skýrslunni eru upplýsingar um útgjöld EFTA-ríkjanna til ríkisaðstoðar fram til ársbyrjunar 2015. Skýrslan byggist á upplýsingum sem EFTA-ríkin senda ESA árlega og tekur til allrar ríkisaðstoðar sem ESA hefur samþykkt og einnig aðstoðar sem ákveðin var fyrir gildistöku EES-samningsins og er enn í gildi. Meirihluti ríkisaðstoðarinnar rennur til verkefna sem hafa fjölþætt áhrif, svo sem til verndunar náttúru, eflingar rannsókna og nýsköpunar og stuðnings við lítil og meðalstór fyrirtæki. Aðstoð til einstakra atvinnugreina hefur að mestu verið hætt.
Ísland jók útgjöld sín til ríkisaðstoðar árið 2014, einkum vegna aukinnar aðstoðar við rannsóknir, þróun, nýsköpun og menningarmál. Ísland samþykkti auk þess árið 2014 ríkisaðstoðarkerfi sem fellur undir almenna hópundanþágu. Hlutfall ríkisaðstoðar af landsframleiðslu er fremur lágt á Íslandi samanborið við ríki Evrópusambandsins og er talsvert undir meðaltali ESB-ríkja.
Noregur dró úr aðstoð til rannsókna, þróunar og nýsköpunar sem og til byggðaþróunar árið 2014. Heildarútgjöld Noregs til ríkisaðstoðar lækkuðu þannig þrátt fyrir aukna aðstoð til umhverfisverndar og orkusparnaðar. Stærsti hluti ríkisaðstoðar í Noregi fór til byggðaþróunar og umhverfismála. Hlutfall ríkisaðstoðar af landsframleiðslu Noregs var örlítið yfir meðaltali ESB-ríkja. Noregur notaði hópundanþáguna í vaxandi mæli og nam hlutfall slíkrar aðstoðar 29% af heildaraðstoð á árinu 2014.
Árið 2014 veitti Liechtenstein aðstoð til verkefna á sviði menningar og þjóðararfs auk þess að veita í fyrsta sinn aðstoð til orkusparnaðar. Því jukust útgjöld til ríkisastoðar í samanburði við fyrri ár. Hlutfall ríkisaðstoðar af landsframleiðslu var þó áfram lægst allra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu.
Útgjöld til ríkisaðstoðar í EFTA-ríkjunum. Fjárhæðir í milljónum evra á föstu verðlagi árið 2014:
EFTA RÍKI | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | 2013 | 2014 |
Ísland | 760.89 | 2,022.15 | 119.97 | 32.74 | 36.87 | 44.10 | 51.07 |
Liechtenstein | 1.11 | 1.19 | 1.33 | 1.47 | 1.49 | 1.48 | 2.33 |
Noregur | 2,062.15 | 2,384.99 | 2,578.02 | 2,931.09 | 3,303.45 | 3,007.89 | 2,894.06 |
Ríkisaðstoð alls – EFTA ríki |
2,824.16 | 4,408.33 | 2,699.31 | 2,965.30 | 3,341.81 | 3,053.47 | 2,947.46 |
Ísland – aðstoð v. fjármálakreppu | 746.36 | 1,998.82 | 96.03 | 4.54 | 0.00 | 0.00 | 0.00 |
Ísland – f. utan aðstoð vegna fjármálakreppu |
14.53 | 23.33 | 23.94 | 28.20 | 36.87 | 44.10 | 51.07 |
Noregur - aðstoð við samgöngur | 542.44 | 490.91 | 249.90 | 204.22 | 406.33 | 326.26 | 282.46 |
Noregur – f. utan aðstoð við samgöngur | 1,519.71 | 1,894.08 | 2,328.12 | 2,726.87 | 2,897.12 | 2,681.63 | 2,611.59 |
Hægt er að sjá samanburðarskýrsluna 2015 í heild sinni hér
Nánari upplýsingar veitir:
Upplýsingafulltrúi
Sími. +32 2 286 18 66
Farsími. +32 492 900 187