Browse by year:


State Aid

Ríkisaðstoð: Fjármögnun uppbyggingar háhraðanets í dreifbýli samræmist EES samningnum

30.6.2015

PR(15)29 – Icelandic version

EN | IS

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst í dag að þeirri niðurstöðu að verkefni Fjarskiptasjóðs, Háhraðanettengingar til allra landsmanna, sem boðið var út á árinu 2008, hafi falið í sér ríkisaðstoð sem þó samræmdist EES samningnum.

Verkefnið náði til heimila og atvinnuhúsnæðis í dreifbýli sem höfðu ekki aðgang að háhraðanettengum og ólíklegt var talið að markaðsskilyrði sköpuðust til að veita slíkan aðgang í náinni framtíð.

«Aðgangur að háhraðanetþjónustu stuðlar að hagvexti og félagslegum umbótum og er mikilvægur til að jafna samkeppnisskilyrði milli landshluta og koma í veg fyrir að stafræn gjá myndist», segir Oda Helen Sletnes, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA.

Að mati íslenskra stjórnvalda þjónar þróun háhraðanets mikilvægu hlutverki í efnahagslegri uppbyggingu landsins en markmið þeirra er að árið 2022 verði 99.9% heimila og fyrirtækja með aðgang að háhraðanettengingu. Flest heimili og vinnustaðir á þéttbýlum svæðum hafa nú þegar aðgang að slíkum nettenginum, en víðast er staðan lakari í dreifðari byggðum.

Samkvæmt reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð er hinu opinbera, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, heimilt að fjármagna uppbyggingu breiðbandskerfa á svæðum þar sem slík kerfi eru ekki og þar sem ólíklegt er að einkafjárfestar byggi þau upp á næstu þremur árum.

Árið 2008 efndu Ríkiskaup fyrir hönd Fjarskiptasjóðs til útboðs á verkefninu Háhraðanettengingar til allra landsmanna. Í kjölfarið var samið við Símann um að annast framkvæmd þess. Símanum var samkvæmt samningnum skylt að veita öðrum þjónustuaðilum heildsöluaðgang að kerfinu.

Í kjölfar kvörtunar frá samkeppnisaðila ákvað ESA árið 2013 að hefja formlega rannsókn á ríkisaðstoð til verkefnisins. Kvartandinn hélt því fram að Símanum hefði verið ívilnað með samningnum umfram aðra á breiðbandsmarkaðnum og að greiðslur til fyrirtækisins hefðu verið hærri en tilefni var til. Meðan á rannsókninni stóð bárust ESA athugasemdir frá hagsmunaaðilum og frekari upplýsingar frá íslenskum stjórnvöldum.

ESA hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að verkefnið sé í samræmi við ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins. Rannsóknin leiddi í ljós að vegna tilhögunar verkefnisins og kröfu um að þjónustuaðilum skuli tryggður heildsöluaðgangur verði röskun á samkeppni vegna íhlutunar stjórnvalda í lágmarki.

Ákvörðunin verður innan skamms birt á vefsíðu ESA og í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og EFTA-viðauka þeirra.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Andreas Kjeldsberg Pihl
Upplýsingafulltrúi
Sími. +32 2 286 18 66
Farsími. +32 492 900 187

Other EEA Institutions


imgbanner3
This website is built with Eplica CMS