Ríkisaðstoð: Orkufyrirtæki greiða markaðsverð fyrir afnot af náttúruauðlindum
PR(17)04 – Icelandic version
EN | IS
Ísland hefur fallist á að breyta íslensku regluverki og tryggja þar með að raforkufyrirtæki sem nýta náttúruauðlindir í almannaeigu til orkuframleiðslu greiði ávallt markaðsverð fyrir slík afnot. Íslensk stjórnvöld munu einnig fara yfir gildandi samninga með orkufyrirtækjunum til að tryggja að til framtíðar verði einnig greitt markaðsverð á grundvelli þeirra.
Aðgerðir íslenskra stjórnvalda byggjast á tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem í apríl í fyrra fór fram á gagngerða endurskoðun á fyrirkomulagi þessara mála. Breytt fyrirkomulag kemur í veg fyrir ríkisaðstoð til orkufyrirtækja og mun það hafa áhrif frá 1.janúar 2017.
ESA hefur fyrir vikið ákveðið að loka rannsókn sinni á málinu. ESA mun engu að síður fylgjast með framvindu mála af hálfu íslenskra stjórnvalda.
„Þessar breytingar eru til að tryggja eðlilegt endurgjald fyrir nýtingu náttúruauðlinda í eigu almennings og þar með sanngjarna samkeppni á íslenskum raforkumarkaði,“ segir Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður hjá ESA.
Í apríl í fyrra fór ESA fram á að íslensk stjórnvöld tryggðu að endurgjald fyrir réttinn til að nýta náttúruauðlindir í almannaeigu til raforkuframleiðslu yrði byggt á markaðsforsendum. ESA lagði til ákveðnar ráðstafanir og aðferðafræði til að tryggja að þessu markmiði yrði náð.
Íslensk
stjórnvöld tilkynntu ESA í kjölfarið að þau samþykktu tillögur
stofnunarinnar og myndu grípa til viðeigandi ráðstafana. Þeim ber því lagaleg
skylda til að tryggja að fyrir nýtingu náttúruauðlinda til raforkuframleiðslu
verði héðan í frá greitt á markaðsforsendum og að eldri samningum verði breytt
til samræmis við það.
Íslensk stjórnvöld hafa skipað starfshóp til að yfirfara gildandi löggjöf og leggja
til þær breytingar sem nauðsynlegur eru. Þá ber starfshópnum að móta skýra
aðferðafræði um hvernig markaðsverð náttúruauðlinda verður ákvarðað.
Starfshópurinn mun auk þess endurskoða núgildandi samninga og tryggja þar með
að orkufyrirtæki greiði markaðsverð það sem eftir lifir af gildistíma
samninganna. Íslensk stjórnvöld skuldbinda sig einnig til að upplýsa ESA um gang mála.
Opinber útgáfa ákvörðunar ESA er aðgengileg hér.
Gögn sem
tengjast málinu:
- [20.4.2016] Tilmæli ESA til íslenskra stjórnvalda varðandi nýtingu raforkufyrirtækja á náttúruauðlindum í almannaeigu (75/16/COL)
- [20.4.2016] Fréttatilkynning um tilmæli ESA
Nánari upplýsingar veitir:
Anne Vestbakke
Samskiptastjóri
Sími: +32 2 286 18 66
Farsími: +32 490 57 63 53