Browse by year:


State Aid

Ríkisaðstoð: Leiga á ljósleiðarastreng NATO felur ekki í sér ríkisaðstoð

16.3.2016

PR(16)11 – Icelandic version

EN | IS

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst í dag að þeirri niðurstöðu að samningur íslenskra stjórnvalda við Vodafone um leigu á ljósleiðarastreng í eigu NATO feli ekki í sér ríkisaðstoð.

Í apríl 2008 efndu Ríkiskaup til útboðs á afnotum tveggja ljósleiðara af þeim þremur sem áður voru starfræktir í þágu varnarmála. Markmið útboðsins voru að draga úr kostnaði íslenska ríkisins af rekstri ljósleiðaranna, auka aðgang almennings að bandvídd og auka samkeppni á markaði fyrir gagnaflutninga. Fimm tilboð bárust frá fjórum fyrirtækjum. Varnarmálastofnun undirritaði á grundvelli útboðsins samning við Vodafone um leigu á öðrum ljósleiðaranna í febrúar 2010. Í ársbyrjun 2010 reyndist ekki vera vilji hjá öðrum bjóðendum til að ganga til samninga á grundvelli útboðsins vorið 2008, enda höfðu aðstæður breyst vegna fjármálahrunsins.

Árið 2010 barst ESA kvörtun frá hagsmunaaðila þar sem því var haldið fram að samningurinn við Vodafone fæli í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Árið 2012 komst ESA  að þeirri niðurstöðu í kjölfar frumrannsóknar að umræddur samningur, sem gerður var í kjölfar vel auglýstrar og opinnar útboðsmeðferðar, fæli ekki í sér ríkisaðstoð. Ákvörðun ESA var skotið til EFTA-dómstólsins, sem í janúar 2014 felldi hana úr gildi með dómi í máli E-1/13.

Í júlí 2014 ákvað ESA að hefja formlega rannsókn og var hagsmunaaðilum boðið að leggja fram athugasemdir og upplýsingar. Jafnframt kallaði stofnunin eftir frekari upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum.

Á grundvelli upplýsinga sem bárust, að meðtöldu sérfræðimati á markaðsvirði leiguréttarins, hefur ESA nú komist að þeirri niðurstöðu að umsamið verð leiguréttarins hafi samræmst markaðsvirði. Samningurinn felur því ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins.

Opinber útgáfa ákvörðunar ESA að loka formlegri rannsókn verður birt á vefsíðu ESA og í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og EES viðauka þeirra.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Andreas Kjeldsberg Pihl
Upplýsingafulltrúi
Sími. +32 2 286 18 66
Farsími. +32 492 900 187

Other EEA Institutions


imgbanner1
This website is built with Eplica CMS